Rosalega verð ég alltaf vonlítill þegar ég sé karldurginn sem er yfir kynferðisbrotadeild lögreglunnar tjá sig önugur við fjölmiðla. Sami gaur og fékk áminningu fyrir að gaspra að konur sem klæddu sig glannalega væru að bjóða upp á vandræði.
Framsækinn lögreglustjóri myndi stugga þessari risaeðlu til hliðar og ráða kvenskörung í starfið. Hvaða rugl er þetta, að láta miðaldra karl sem telur að konur kalli yfir sig ofbeldi með klæðnaði og hegðun, stjórna þessum viðkvæma málaflokki?
Ætli að það tíðkist enn að yfirmenn hjá lögreglunni verði að bera flokksskírteini frá Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokknum upp á vasann? Frægt er orðið að pabbi borgarstjóra fékk aldrei stöðuhækkun vegna þess að hann kaus Alþýðubandalagið.
Enn eitt dæmið um að við virðumst ekki ætla að komast upp úr gömlu hjólförunum sem við vorum að hjakka í fyrir hrun. Ekkert virðist ætla að færast fram á við. Ekki einu sinni lögreglan í landinu.