Vonlaus vínpólítík

Reykjavík-Rotterdam um helgina.  Ísland hlýtur að vera eina vestræna landið þar sem það margborgar sig að smygla inn áfengi sjóleiðina.  Draslið er svo dýrt úr einokunarverslun ríkissins.

Enda skellihlær hollenski glæpahundurinn þegar hann reynir að útskýra þessa grátlegu staðreynd fyrir samverkamönnum sínum í myndinni.

Reyndar eru farmenn sennilega hættir þessu sopasvindli og búnir að snúa sér að hvítu nefdufti sem tekur minna pláss og er hægt að fela hvar sem er í stóru skipi.

Hver veit nema að það breytist aftur með ört hækkandi áfengisverði í boði Skattgríms Joð.  Að lítri af vodka skuli kosta 6 – 7 þúsund út úr Vínbúð nær ekki nokkurri átt.  Eða bjór 350 – 400 krónur.

En það skiptir engu máli þó hrunflokkarnir taki aftur við.  Þeir hafa bara áhuga á að svíkja almenning enn betur í gegnum bankana.  Er skítsama þó skítugur almúginn hafi ekki efni á smá brjóstbirtu meðan hann er rúinn inn að skinni.

Sjálfselskuflokkurinn lofaði því árum saman að koma léttvíni og bjór í matvöruverslanir.  Firraði sig svo allri ábyrgð með því að setja umræðu um frumvarpið á dagsskrá á allra versta kvöldi búsáhaldarbyltingarinnar þegar allt ætlaði um koll að keyra.

Þannig hvarf sú mögulega réttarbót og hefur ekki verið nefnd síðan í sölum Alþingis.  Er víst óvinsælt að láta frá sér skattstofna í niðursveiflu.  Hvað þá mjólkurkú eins og ÁTVR.

Færðu inn athugasemd