Ef ekki væri Ólafur

Ef ekki væri fyrir þokukennt framboð sitjandi forseta til næstu tveggja til fjögurra ára, þá yrðu komandi kosningar mun meira spennandi.  Án Ólafs yrði meiri áhugi og tvísýnna um úrslit.  Nægir eru frambjóðendurnir.

Eldra fólk vill Ólaf áfram eftir glæsta frammistöðu hans í Icesave.  Gleymir því hinsvegar að hann var klappstýra arðræningjanna fyrir hrun og er núna eftirlæti íhalds og kvótagreifa.  Ránfuglanna sem bíða slefandi eftir að komast aftur að kjötkötlunum að ári.

Þá kýs ég nú frekar krataprinsessu til forseta.  Fyrir mér er Samfylkingin langt í frá arftaki Alþýðuflokksins.  Þar ráða bara gamlir kommar úr Alþýðubandalaginu mínus formaður sem er gamall krati en hagar sér ekki samkvæmt því.  Veit ekkert um hvort Þóra tilheyrir þessu liði.  Skiptir mig engu máli.

Verra er ef fjölskylduvandamál frændfólks hennar Þóru fara að hafa áhrif á fylgið.  Ósanngjarnt að kenna henni um girnd föðurbróður hennar í barnungar stúlkur.  Kemur Þóru ekkert við.

Já, það er kominn tími til að mín kynslóð komist til æðstu embætta.  Ekki myndi skemma fyrir að þar yrði kona með fjölskyldu.  Að smá líf færðist inn á Bessastaði.  Þarna hafa ekki búið krakkar síðan Vigdís var í embætti.

Annars er Andrea Jóhanna Ólafsdóttir líka mjög vænlegur frambjóðandi.  Fer fyrir Hagsmunasamtökum heimilanna og á að baki langan feril í sjálfboðastörfum fyrir ýmis góð málefni.  Ekki ólíkt Obama áður en hann komst inn á þing í BNA og varð síðar forseti.

Hún býðst til að gefa skerfinn af launum sínum til góðgerðarmála og þiggja bara lágmarkslaun þar til að lán til heimilanna lagast og lágmarkslaun verða lögfest.  Ekki amalegt það!

Ég er alveg orðinn ruglaður.  Nú þarf ég að leggjast undir feld og ná niðurstöðu um hvora ég krossa við laugardaginn 30. júní.  Margt getur breyst næstu tvo mánuði en varla svo að ég kjósi ekki aðra hvora skvísuna, Þóru eða Andreu.

Færðu inn athugasemd