Einelti

Mikil umræða hefur verið í fjölmiðlum um einelti í grunnskólum.  Ég var tiltölulega heppinn því eldri bræður mínir héldu verstu föntunum í skefjum með vitneskjunni um sjálfa sig.  En þar með er ekki sagt að ég hafi sloppið fullkomlega við eineltið.  Það náði mér um tíma.

Ætla mér ekki að fjalla frekar um téð einelti hérna.  Látum nægja að ég hafi skrifað skilmerkilega um það fyrir skúffuna og er enn að vinna úr því.  Skil reyndar ekki enn af hverju ég lenti í einelti.  Hvað ég gerði til að ávinna mér slíka andúð skólafélaga minna?

Vissulega varð maður vitni að einelti í grunnskólanum.  Verst þótti mér að fylgjast með einelti stúlknanna.  Það var svo lúmskt og falið.  Tær sálfræði stefnt gegn stelpunum sem féllu ekki í hópinn.  Sumar af þeim höfðu það eitt til saka unnið að eiga erfitt heima fyrir.  Pabbinn kannski drykkfelldur eða fjárhagurinn slæmur.

Strákarnir voru ófeimnari og fóru beint gegn manni.  Engin miskun gefin.  Og hnefarnir látnir tala.  Stundum líka fætur.  Lymskuheit og feluleikur voru ekki fyrir hendi þegar strákarnir lögðu mig í einelti.

Einelti er oftast stundað af hópi gegn einstaklingi.  Annars gengur það varla upp.  Er frekar auðvelt að þagga niður í einum niðurrifsseggi.  Verra þegar hópur sækir að manni.

Færðu inn athugasemd