Quigley Down Under

Hjá sjálfum aðalleikaranum, Tom Selleck, er myndin Quigley Down Under í uppáhaldi.  Bandarískur-ástralskur vestri þar sem meistaraskyttan verður sjálfur að skotmarki spillts óðalseiganda eftir að hafa neitað að myrða innfædda með sérhannaða Sharpsrifflinum sínum.

Shiloh Rifle Manufacturing Co. í Big Timber í Montana handsmíðaði þrjá rifla fyrir myndina eftir 1874 útgáfunni og bættu fjórum þumlungum við hlaupið.  Tom Selleck á víst enn einn af þeim í stóru byssusafni sínu.

Fyrir áhugasama er tveggja ára bið eftir álíka riffli og hann kostar skildinginn.  Enda handsmíðaður af nákvæmni eftir frumgerðunum sem voru framleiddar árin 1850 – 1881 í Bandaríkjunum.

Hægt er að panta mun ódýrari útgáfur með minni biðtíma hjá öðrum fyrirtækjum.  En þeir eru víst mun síðri að gerð og langt í frá eins vandaðir og frumgerðirnar.

Árlega er haldið Quigleymót í skotfimi með endurgerðum og upprunalegum Sharpsrifflum í bænum Forsyth í Montanafylki.  Þar rembast skytturnar við að hitta skotmark í 910 metra (1000 jarda) fjarlægð.  Rétt eins og aðalpersóna myndarinnar þegar hann plaffar vatnsfötu þrisvar í röð til að sanna fimi sína fyrir væntanlegum vinnuveitanda.

Matthew Quigley í höndum Tom Selleck er vel heppnað afturhvarf til gömlu vestranna.  Rétt eins og margar persónur John Wayne, þá notar hann frekar riffil heldur en skammbyssu.  Bara vegna þess að hann er vanari rifflinum og sér enga ástæðu til að sveifla byssunni að óþörfu.  Þess vegna misskilja andstæðingar þeirra hæfni þeirra með sexhleypuna og gjalda fyrir með lífinu.

Lítið kemur fram um fortíð Quigley.  Kannski var hann Bufflaskytta á sléttunum.  Eða þar áður í skyttusveit Norðanmanna í Borgarastríðinu.  Þeir notuðu allir Sharpsriffla.

Skiptir ekki máli.  Quigley Down Under er skrambi fínn vestri!

Færðu inn athugasemd