Þrammaði fyrir allan peninginn í gær. Og komst að því að betra er að borða minna og oftar heldur en að gúffa í sig tveimur risamáltíðum á ókristilegum tímum sólarhringsins.
Fór í tvo göngutúra yfir daginn og varð að bæta á tankinn milli þeirra. Spratt upp eins og Stjáni Blái við einn banana og gat haldið áfram þramminu. Skrokkurinn er bara eins Mr. Fusion úr Back To The Future. Þarf bara smá rusl og vökva með reglulegu millibili. Og hreyfingu.
Hef komist að því að blaðalestur og neysla matar fara illa saman. Hætti ekki að troða í mig fyrir snepillinn er búinn. Og því miður er ég ekkert sérstaklega hraðlæs. Er því búinn að slíta þessar tvær athafnir í sundur.
Ætti kannski að taka afa til fyrirmyndar og borða standandi eins og hann gerði oft við skurðarbrettið með hnífinn að sneiða niður lax á brauðsneið. Annar hver biti endaði reyndar upp í honum.
Kynslóð ömmu og afa borðaði mun fituminni mat en mín gerir. Og nær náttúrunni. Óunnið kjöt og spriklandi fisk úr hafinu. Helst að þau yrðu á mis við grænmeti og ávexti. Og þau borðuðu sjaldan yfir sig eins og við teljum eðlilegt.