Ef til vill er rugl að festa sér frambjóðanda strax áður en sjálf kosningabaráttan hefst. Aldrei hafa fleiri verið í boði og hvað þá gegn sitjandi forseta. Reyndar finnst mörgum seta hans vera orðin nógu löng.
Heyrði aðeins í Ólafi í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Þar beindi hann aðallega spjótum sínum að Þóru og benti á að hún birtist honum sem mjög þægur væntanlegur forseti sem ætlar sér að fylgja ákvörðunum ríkisstjórna út í ystu æsar. Sérstaklega á sviði utanríkismála.
Eins benti hann á að framboð hennar væri skilgreint afkvæmi framboðs Jóns Gnarrs til borgarstjóra. Þar væri á ferð sami leikstjóri sem hefði gert heimildarmynd um grínistann þann. Sitthvað væri útlit og atgervi í embætti forseta lýðveldisins.
Gott og vel. En er eitthvað skárra að halda í gamlan forseta sem kemur nú fram sem yfirklappstýra LÍÚ gegn stórum hluta þjóðarinnar? Er orðinn frambjóðandi öfgahægrimanna á Hádegismóum. Hefði sú staðreynd þótt frétt til næsta bæjar þegar gamli komminn fór fyrst fram árið 1996.