Við Íslendingar erum undarleg þegar kemur að því að standa í röð eða bíða þolinmóð eftir afgreiðslu samkvæmt númerakerfi. Tók til dæmis eftir þessu áðan þegar ég missti mig í megavikuna.
Hafði vaðið fyrir neðan mig og pantaði tímanlega á netinu. Og sótti slydduna ekki fyrr en kortéri seinna en henni hafði verið lofað. Fór því sjálfsöruggur í röðina, skellti seðlum á borðið og gekk án tafar út með bökuna mína meðan hópur af fólki sat eftir með skeifu á vör og þrumuský yfir höfði sér.
Liðið horfði á eftir mér eins og ég hefði troðið mér fram fyrir með látum og frekju. Nei, ég var bara ekkert að flýta mér og gaf starfsfólkinu rúman tíma til að búa til slydduna. Það þarf ekki allt að gerast einn, tveir og bingó. Pizzurnar eru afgreiddar í þeirri röð sem þær eru pantaðar.
Við kjötborðið í Nóatúni tekur maður sér númer svo afgreiðslufólkið viti hver er næstur í röðinni. Margir fatta þetta engan veginn og ætla sér að ryðjast fremst með látum. Sérstaklega karlfautar á miðjum aldri og ölmarineraðir grillarar um helgar.
Verstur er þó óákveðni eiginmaðurinn sem verður að hringja heim þegar röðin er loksins komin að honum. Gat hann ekki verið búinn að því áður! Úrvalið í borðinu blasir við öllum. Getur strax séð hvað er í boði. Oooohhhh! Hvers eigum við hin að gjalda!