Voðalega held ég að þeir sem mæla á móti því að hætt verði að skrifa um „meintar“ nauðganir í blöð og netmiðla séu skaddaðir einstaklingar. Jafnvel smá hlynntir því að konur séu teknar með valdi á djamminu. Að slíkt sé bara hluti af leiknum.
Af hverju er alltaf ritað um „meintar“ nauðganir en aldrei meinta líkamsárás eða meint innbrot? Vegna þess að sá (varla sú) sem gælir við lyklaborðið þá stundina hefur einhvern tíma orðið fyrir höfnun konu og trúir því statt og stöðugt að stundum sé ekkert að marka slíkar neitanir á nánari kynnum. Að hún sé að leika sér að honum. Og þess vegna þurfi karlmaðurinn stundum að taka málin í sínar hendur og ganga „ákveðið“ fram til að koma málum af stað. Slíkt geti varla talist til nauðgunar.
„Meint“ nauðgun á prenti er jafngildi þess að fórnarlambinu sé nauðgað aftur frammi fyrir alþjóð. Nauðgunarkærur eru sjaldnast misskilningur. Og ölvunarástand eða klæðnaður fórnarlamba slíks glæps eiga ekki að skipta neinu máli. Nauðgun er aldrei réttlætanleg! Ekki frekar en annað ofbeldi.