Opinbert einkalíf

Verslaði með Bjarna Ben. formanni Sjálfstæðisflokksins í Vínbúðinni við Dalveg. Eða þannig.  Ætlaði ekki að þekkja gaurinn án jakkafatanna.  Og hann er hávaxnari en í sjónvarpinu.  Var að týna eðal rauðvín og bjór í kerru með konunni sinni.

Kom mér á óvart að þau fengu að vera í friði.  Eða allt þar til Bjarni fór út með veigarnar í gráa Reinsann þeirra.  Þá stóð einhver mannvitsbrekkan yfir honum og messaði með fingurinn út í loftið eins og Marteinn Mosdal sjálfur.  Bjarni tók því með jafnaðargeði enda aldrei að vita hverju svona æstir menn geta tekið upp á að gera.

Sennilega ekki svo galin regla að ef maður hefur ekkert fallegt eða uppbyggilegt að segja við fólk, þá eigi maður bara að þegja og hugsa sitt í hljóði.   Tala nú ekki um ef maður þekkir viðkomandi ekki persónulega.  Skrifaðu frekar bréf eða kjallaragrein.  Allir eiga rétt á sínu einkalífi.

Færðu inn athugasemd