Djörf vinstristjórn vill sækja frekari greiðslur úr digrum sjóðum útgerðarmanna fyrir aðgang þeirra að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Kvótagreifarnir svara með því að kyrrsetja flotann í allt að vikutíma. Láta eins og óþekkir krakkar. Hvernig er hægt að hafa samúð með svona fólki á sjálfan sjómannadaginn?
Alveg er frábært að fylgjast með þrælunum þeirra syngja í kór í auglýsingaherferðinni sem hefur dunið á landsmönnum síðustu vikur. Það fer enginn á hausinn þó útgerðirnar neyðist til að greiða aðeins meira af ofurgróða sínum til ríkissjóðs.
Af hverju eru sjómenn að selja merki í tilefni dagsins til að safna fyrir betri björgunarbúnaði um borð í togurum landsins? Á útgerðin ekki að greiða fyrir fullkomnasta búnað sem völ er á hverju sinni fyrir starfsmenn sína?
LÍÚ; lærið smá auðmýkt og sýnið þakklæti! Mjög fáir njóta þeirra forréttinda að fæðast Íslendingar. Enn færri fá að sækja sjóinn. Deilið kjörunum betur með okkur hinum!