Að Þóra skuli hafa dirfst að taka þátt í starfi stjórnmálasamtaka sem eru ekki lengur til er stærsta ástæðan fyrir því að ekki má kjósa hana. Samfylkingin er langt í frá Alþýðuflokkurinn sálugi. Tómt Alþýðubandalagslið sem ræður þar ríkjum núna.
Sama lið og sitjandi forseti stýrði áður en hann slysaðist á Bessastaði fyrir sextán árum. Hann má eiga stórpólítíska fortíð að baki en hún má ekki einu sinni hafa daðrað við stjórnmálin í æsku. Enn og aftur eru gerðar ríkari kröfur til kvenna en karla.
Verst þykir mér þó að kjósendur virðast ætla að haga sér eins og klárinn sem leitar þangað sem hann er kvaldastur. Virðast öll vera búin að gleyma klappstýruhlutverki sitjandi forseta fyrir útrásarræningjana fyrir ekki svo löngu.
Eiga tvær neitanir á Icesave að bæta fyrir þær syndir? Komu þær neitanir ekki útrásarþjófunum best? Trúir fólk því virkilega að Ólafur hafi gert þetta eingöngu fyrir þjóð sína. Hvernig væri að vakna og finna ilminn af sjóðandi kaffipottinum!
Gott og vel. Kjósið aftur yfir ykkur klappstýru kúgara og ræningja. En þið skuluð ekki dirfast að kvarta um mitt kjörtímabil þegar þið hafið fengið upp í kok á karlinum sem þekkti ekki sinn vitjunartíma.
Að eftir sé að koma í höfn kosningu um ESB er ekki næg ástæða til að styðja þennan gosa til áframhaldandi setu á forsetastóli. Allir aðrir frambjóðendur hafa lofað að sjá til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu fari fram reyni ríkisstjórnin að sneiða framhjá henni.
Og það verður ekkert Icesave III. Dómsorð í því máli mun birtast í byrjun september og forseti Íslands mun ekkert geta gert gagnvart þeirri niðurstöðu þrátt fyrir fullyrðingar um hið gagnstæða. Málið fór úr okkar höndum þegar við höfnuðum Icesave II.