Verð að viðurkenna að ég er frekar hugsi yfir djúpri andúð kynbræðra minna á Þóru Arnórsdóttur. Sérstaklega þeirra sem eru á svipuðum aldri og við. Mér finnst þeir opinbera karlrembu sína. Staðfesta fyrir okkur hinum að þeir vilja drottna yfir konum í krafti kyns síns.
Mörgum körlum finnst erfitt að sjá konur í valdastöðum. Þó náði Vigdís kjöri 1980 og ekki síst fyrir atkvæði karla. Kannski vex körlum í augum að nýbökuð móðir skuli dirfast að sækja fram á völlinn þegar þeir sjálfir nenna varla upp úr sófanum heima hjá sér meðan konan þeirra þjónar þeim og skeinir eftir salernisferðir.
Ef til vill sigraði Vigdís því hún var einhleyp. Þolir karlþjóðin ekki að gift þriggja barna móðir verði forseti? Trúa þeir virkilega að Dorrit hafi engin áhrif á ákvarðanir Ólafs. Að meiri hætta sé á því að karlkyns maki hafi áhrif á forsetann?
Af hverju má kvenkyns forseti ekki eiga sterkan maka sem stendur henni við hlið? Er það vegna þess að karlpungar þessa lands telja sjálfsagt að karlar ráði ferðinni í hjónabandinu og taki allar meiriháttar ákvarðanir? Að gift kona sem sækist eftir embætti forseta landsins hljóti að vera undir hæl maka síns?
Nei, frekar vilja þessir pungar kjósa nær sjötuga klappstýru útrásarinnar áfram svo hann geti slegið met með því að hanga á embættinu í tvo áratugi og tryggt komandi ríkisstjórn hrunflokkanna í sessi að ári liðnu.
Framtíðin er ætíð óviss. Ekkert nýtt að hún sé það einmitt núna. Að telja sig vera ómissandi ber vott um mikinn hroka og sjálfsdýrkun. Þannig forseta vilja pungarnir áfram. Annars hrynur þeirra veröld.