Æ, er orðinn hundleiður á röflinu í sjálfum mér yfir einhverjum forsetaslag um gamalt fjós að Bessastöðum. Þrjár og hálf vika í þetta og spennan dó í kvöld á RÚV. Gamli gaurinn með gula bindið mun sennilega sitja áfram því svo mörgum er illa við breytingar.
Þrammaði fram og til baka niður í Smára eftir æti. Nennti ekki niður á Austurvöll að slást við ölvað fiskverkafólk úr Garðinum. Leit við í Europris, Kosti, Sports Direct og Bónus. Lauk ferðinni með því að bíða eftir dópi í Lyfju, eða Grenju eins og ég kalla hana, því foreldrar veiku barnanna af Læknavaktinni koma þangað.
Þar öskra krílin í kór rétt eins og um keppni sé að ræða. Drep tímann með því að prófa ilmvötnin í „tester“ glösunum. Beckham ilmar einstaklega vel. Eftir afgreiðslu rýk ég út titrandi og sveittur með geðveikiskipp í öðru augnlokinu. Svona er að eiga engin börn. Eða þoli ég bara ekki barnsgrátur?
Kostur er mér að skapi því þar er ég sjaldnast þéttasti gaurinn á svæðinu. Fell inn í hóp kjagandi viðskiptavina sem elska allt amerískt. Keypti reyndar bara nokkrar túnfiskdósir handa loðdýrinu hennar mömmu. Kötturinn lítur varla við öðrum tegundum en frá Kosti. Kannski að hún sé kani?
Rak nefið rétt svo inn í Sports Direct. Þarf að skoða mig betur um seinna. Komst varla inn því annar hver kjaftur bæjarins var þarna inni. Mikið finnst mér samt afgreiðslufólkið vera ungt að árum. Krakkar á lágmarkslaunum. Það er málið til að halda verðinu niðri sbr. Bónus og Krónan. Kemur samt niður á þjónustunni.