Eitt sem ég skil ekki. Af hverju mættu sumir sjómenn á fund LÍÚ með hjálma á höfði? Átti það að undirstrika hve hættulegt starfið er eða ógna þeim sem voru þeim ekki sammála? Og hver mætir í mótmæli vegna þess að yfirmaðurinn skipar svo til um? – Þrælar og leiguliðar! Minnir á Sturlungaöld þegar höfðingjar beittu fyrir sig bændum, vinnumönnum og þrælum.
Annað vefst fyrir mér. Hvernig getur galtómur ríkissjóður ábyrgst Vaðlaheiðargöng og greitt upp skuldahalann eftir SpKef? Sparisjóð sem átti fjölda viðskiptavina á Norðausturlandi fyrir hrun. Kannski vegna þess að bæði viðskiptavinirnir og göngin eru í kjördæmi Steingríms Joð. Hver segir að framsóknarmennskan sé dauð úr öllum æðum.
Gróðinn af útgerðinni er svo gífurlegur að ekkert mál er að ráðast í rándýra áróðursherferð gegn frumvarpi stjórnvalda í öllum fjölmiðlum; jafnt prentmiðlum, neti, útvarpi og sjónvarpi. Og auk þess að sigla flotanum til Reykjavíkur til mótmæla.
Hagsmunirnir eru svo ríkir að þeim má ekki deila með þjóðinni. LÍÚ lítur á fiskinn í sjónum sem sitt einkamál. Kominn tími til að leiðrétta þá mafíu í eitt skipti fyrir öll. Fiskurinn er sameign þjóðarinnar!