Money makes the world go around. Þannig er það að minnsta kosti þegar kemur að tveimur stærstu útihátíðum sumarsins. Áður fyrr neyddust gestir til að drösla tjöldum, svefnpokum, dýnum og stólum með sér. En ekki lengur.
Nú er hægt að leigja allt draslið á staðnum. Herlegheitin bíða uppsett og þú þarft ekki einu sinni að ganga frá. Leigan (www.rentatent.is) sér um allt vesen. Draumur hvers djammara. Forsalan í Eyjum bauð upp á eitthvað svipað. Jafnvel svefnpokapláss inn í íþróttahúsum. Valkostur sem er fyrir löngu uppseldur.
Reyndar einn ókostur við annars góða þjónustu að leigutaki þarf að vera búinn að rýma tjaldið klukkan 10:00 á mánudegi í Eyjum og sunnudegi að Gaddstaðarflötum. Frekar erfitt þegar tveggja-þriggja daga þynnkan er rétt byrjuð að kikka inn.
Sumir eru kannski enn drukknir eða nýbúnir að hösla. Þurfa aðeins meiri tíma til að klára dæmið. Getur komið sér illa að þurfa að gera það út á túni fyrir allra augum. Fresturinn þyrfti að vera til kl. 16:00 til að hnýta alla lausa enda.
Síþyrstir gestir Bestu hátíðarinnar þurfa svo ekki einu sinni að koma með áfengi með sér. Í boði verða „kaldir drykkir“ yfir borðið á meðan djamminu stendur. Hentar einstaklega vel fyrir barflugur úr 101 Reykjavík sem eru nýbúnar að slá smálán.
Þetta eru ekki neinar „útihátíðir“ lengur. Bara miðbæjardjömm undir berum himni með sem minnstum óþægindum. Ofvernduð borgarbörn láta ekki bjóða sér vosbúð og vesældardóm. Heimta sömu þjónustu og niður í miðbæ. Enda kann enginn lengur að tjalda.