Hvernig varstu klædd?

Hef verið að lesa átakanlegar lýsingar fórnarlamba nauðgana á drusluganga.org. Eftir nokkrar sögur var ég orðinn svo reiður að gat ekki meira í bili. Blóðþrýstingurinn fór upp úr öllu valdi.  Verð að skammta mér tvær til þrjár frásagnir á dag.

Lýsingarnar höfðu slík áhrif á mig að ég fór að skammast mín fyrir að hafa fæðst karlkyns.  Djöfulsins aumingjar sem kynbræður mínir geta verið!   Þeir sleppa nær alltaf undan réttvísinni og skömminni sem þolendurnir þurfa að burðast með vegna þess að íslenskt samfélag trúir konunum sjaldnast.

Hún hlýtur að hafa kallað nauðgunina yfir sig með druslulegum klæðnaði, daðri eða ölvun.  Af hverju var hún að bjóða manninum með sér heim?  Misskildi hún ekki bara eitthvað?  Af hverju gekk hún einsömul heim?  Hvað er þetta, hann gat ekki vakið hana til að spyrja leyfis.

Stundum finnst mér eins og lítið hafi breyst síðan fyrr á öldum þegar konur gátu ekki gengið óhultar milli bæja án þess að eiga á hættu að einhver andskotinn kæmi hlaupandi á eftir þeim með buxurnar á hælunum.  Þá eins og nú þýddi lítið að kæra atburðinn því sjaldnast eru önnur vitni en gerandinn og þolandinn.  Orð gegn orði.

Færðu inn athugasemd