Gengið til góðs

Ég er frekar einföld sál og auðblekktur.  Þegar ég er latur og nenni ekki að hreyfa mig, þá geri ég mér upp erindi í verslanir lengra í burtu.  Annars fæst ég ekki upp úr sófanum. Getur orðið svo niðurdrepandi að láta ræna sig marga daga í röð af hverfissjoppunni.

Í gær þrammaði ég í Nettó í Mjódd.  Til að leiðast ekki gerði ég mér far um að þræða hliðargötur.  Sá margt breytt og nýtt. Enda var ég ekkert að flýta mér og settist reglulega niður svo ég fengi ekki kransæðastíflu á leiðinni.  Nenni nefnilega ekki að deyja út á götu eins og róni.

11-11 í Þverbrekku er orðin að sólarhringsbúð 10-11.  Án efa til mikillar gleði fyrir íbúana þar í kring.  Gamla KFUK/KFUK-húsið við Lyngheiði er orðið að raðhúsi.  Sennilega fyrir löngu síðan. VAKA flutt inn þar sem hjálpartækjamiðstöð Tryggingastofnar var á Smiðjuvegi og Jói vinur skúraði á kvöldin.

Fólkið í Mjóddinni er þó jafn skrítið og áður.  Og dagdrykkjufólkið situr enn í rjóðrinu rétt hjá Strætó. Sem er gott að vita.  Þá er bara að skipuleggja hvert ég þramma í dag.  Einhverjar hugmyndir?

Færðu inn athugasemd