Þrammaði fyrir allar aldir niður í Smárann til að kjósa. Djöfulsins hitasvækja strax klukkan tíu um morguninn. Þræddi framhjá Sporthúsinu við Kópavogsvöll. Sjálfsdýrkunarsöfnuður að æfa þar úti við. Öðru megin var Crossfit og hinu megin Hot Yoga. Báðir hópar horfðu á mig eins og ég væri krabbamein.
Ætlaði ekki að komast inn á kjörstað fyrir gamalmennum sem gengu við staf. Þó engin röð við kjördeild I og ég skundaði bak við hengið. Starði furðu lostinn á ólöglegan seðilinn sem innihélt enga ferninga fyrir X-ið mitt. Tilefni til kæru. Hæstiréttur hlýtur að ógilda kosningarnar. Annað eins hefur hann gert.
Einhver eftirlitsdvergur dró frá hjá mér meðan ég var að krossa við. Sendi honum illt auga. Ekki eins og það væri einhver örtröð svona snemma. Mátti ég ekki skoða kjörseðilinn í friði. Svona hélt fíflið áfram eftir að ég steig út. Sé eftir því að hafa ekki sagt honum að hengja sig.
Skundaði svo út í Bónus. Kom við á kamrinum niður í kjallara. Heldur enginn friður þar fyrir frekjum og fólum. Liðið hékk á húninum meðan ég kastaði af mér vatni. Gott ef sumir ráku ekki öxlina í hurðina um leið. Spurning hvort þau hefðu hent mér út á sprellanum ef þau hefðu getað brotið upp hurðina.
Greip með mér nokkra Thule úr dýrustu búð landsins. Alltaf gaman að fylgjast með öðrum sem reka þar inn nefin gangandi með andlitin niður í gólf á þvílíkum hraða. Passa sig að horfa ekki á neinn né heilsa. Það er víst skammarlegt að kaupa áfengi. Barst bara aldrei minnismiðinn þess efnis.