Einvaldur til lífstíðar

Þegar ég fór að muna eftir mér var Kristján Eldjárn forseti Íslands og Jimmy Carter Bandaríkjanna.  Tveir góðlegir menn og gæðasálir.  Sá fyrri fornleifafræðingur en hinn fyrrum næstráðandi í kafbátaflotanum, hnetubóndi og prestur sem hlustaði á Bob Dylan.

Fljótlega tóku Vigdís Finnbogadóttir og Ronald Reagan við völdum.  Ég vandist því að kona getur verið í æðstu embættum rétt eins og karl.  Horfði á nýársávörp Frú Vigdísar fram á fullorðinsár.  Svo komst refurinn til valda og ég virðist ekki geta losnað við hann. Guð veit að ég hef aldrei kosið hann.  Af hverju getur hann ekki bara horfið á eftirlaun?

Ólafur Ragnar er orðinn jafn leiðinlegur og George W. Bush yngri sem gerði heimsbyggðinni lífið leitt í tvö kjörtímabil í röð.  Nema að Ólafur er að hefja sitt fimmta kjörtímabil.  Franklin D. Roosevelt sat ekki einu sinni svona lengi.  Hóf sitt fjórða í miðri heimsstyrjöld en dó stuttu seinna.

Eftir það var lögunum breytt í Bandaríkjunum og núna má hver forseti bara sitja í átta ár svo lýðræðinu sé best þjónað.  Við á Íslandi skiljum ekki slík rök.  Enda erum við gjörspillt bananalýðveldi stofnað undir verndarvæng Ameríku í miðju heimsstríði meðan aðrar þjóðir kvöldust undir járnhæl öxulveldanna.

Í Rómarveldi fyrir tíma keisaraveldissins mátti hinn kjörni leiðtogi sitja lengur ef hætta stafaði að ríkinu eða óvissutímar væru framundan.  Júlíus Sesar nýtti sér þessa glufu og lét gera sig að einvaldi til lífstíðar (dictator).  Eftirmenn hans kölluðu sig keisara (Ceasar). Enn í dag er embætti kanslara Þýskalands dregið af nafni Sesars.

Hinn gamli prófessor Ólafur Ragnar kann stjórnmálasöguna spjaldanna á milli. Vissi að hann þyrfti bara að dreifa smá ótta í hjörtu samlanda sinna og koma fram sem hinn sterki maður til að hljóta kosningu til síns fimmta kjörtímabils.  Sú aðferð dugði Adolf Hitler á sínum tíma.  Sá lét loks gera sig að einvaldi því óvissutímar voru framundan og stríð fyrir höndum.  Við vitum hvernig sú saga fór.

Færðu inn athugasemd