Við frænka og mamma brunuðum upp í garð þar sem afi og amma hvíla. Systurnar komu fyrir sumarblómum og snyrtu í kring um glæsilegt leiðið sem bróðir þeirra hafði gengið frá í fyrra. Blessuð gömlu hjónin.
Er að koma smá svipur á Kópavogskirkjugarð. Tréin hækka og skjól er tekið að myndast. Samt sorglegt að sjá kannski fimm ára leiði sem enn bera veðurbarinn hvítan kross og ekkert er hirt um af ættingjum og vinum. Engin merki um að viðkomandi eigi ástvini á lífi.
Vissulega er fólk misduglegt að sinna grafreitum sinna nánustu. Og kannski á fólk ekki heimagengt eða engan pening til að reisa legstein. Þó grunar mig að sumu fólki sé bara nákvæmlega sama eftir greftrun. Slíti þar öll tengsl við þann látna.
Var nefnilega bent á að viss gröf í Bessastaðakirkjugarði sé furðu látlaus með litlum og liggjandi stein sem sæmir varla þeirri sómakonu sem þar hvílir. En eins og ég segi, þá eru kannski þar á ferð óskir hennar sjálfrar. Þarf ekki að vera hirðuleysi ættingja um að kenna.