Vanvirt lýðræði

Ef við Íslendingar hefðum ekki verið svo heppin að vera undir Dönum um aldir, þá hefði lýðræði seint borist til okkar stranda. Danir neyddu það ofan í okkur eftir þeirra eigin lýðræðisbyltingu frá Þýskalandi.  Annars værum við eflaust enn með vistarband og bann við þéttbýlismyndun við sjóinn svo bændahöfðingjar myndu ekki missa vinnuafl sitt.

Seinni lýðræðisbyltingin sigldi hingað vestur frá Ameríku í kjölfar stríðsbrölts Hitlers nokkurs á meginlandi Evrópu.  Bandaríkin tóku við hervernd landsins af Bretum.  Síðan þá höfum við verið kölluð Litla-Ameríka á hinum Norðurlöndunum. Sem mér finnst óskiljanlegt miðað við hve fasísk íslensk stjórnvöld eru með boðum sínum, bönnum og ofursköttum.  Kannski er ég bara of frjálslyndur í hugsun?

Gæfa okkar og böl er að hafa ekki þurft að hafa fyrir lýðræðinu sem við þó njótum. Við erum sennilega eina landið í heiminum sem öðlaðist aukin réttindi án þess að nokkur blóðdropi félli til jarðar. Við nutum þess að vera nýlenda Dana. Lýðræði annarra landa var greitt með lífi milljóna manna sem tóku kúlu í brjóstið fyrir málstaðinn.

Þess vegna nauðgum við lýðræðinu aftur og aftur í hverjum kosningum.  Kjósum yfir okkur tóma siðleysingja og glæpamenn. Berum enga virðingu fyrir kosningarétti okkar. Hugsum ekki um afleiðingar þess hvernig við greiðum atkvæði, heldur höldum með einhverju liði sem á að klækja á hinu liðinu sem við virkilega þolum ekki.  Greiðum þeim næst versta atkvæði okkar í stað þess að veðja á nýja hesta.

Færðu inn athugasemd