Fyrir hrun var þjóðin rosalega upptekin af því að eiga flott heimili og Range Rover á hlaðinu fyrir framan tvöfalda bílskúrinn. Nú gengur allt út á að líta sem best út og vera á fullu í Cross Fit og Boot Camp. Innri maðurinn skiptir engu máli. Útlitið er fyrir öllu. Pakkningarnar. Skelin. Ytra byrðið.
Fólk eyðir sumarfríum í að ganga þvert yfir landið og að safna fyrir eitthvert málefni. Hlaupa upp og niður Esjuna tíu sinnum á einum og sama deginum. Hjóla í vinnuna. Taka þátt í marathonum. Búa til grenjusögur fyrir helgarblöðin hve mjög þau hafa breytt lífi sínu til góðs.
Óþolandi myndir af grennra fólki poppa upp á fésbókinni dag hvern þar sem vinir og kunningjar skilja eftir ummæli á borð við djöfull ertu orðinn flottur! Laxamyndirnar hafa vikið fyrir vel smurðum vöðvum og brúnkukremi.
Enginn er lengur gjaldgengur nema að hafa gert líkamlega erfiðan hlut yfir daginn og póstað því á fésið. Helst meðfram þremur störfum og brjóstagjöf. Enn betra ef dauðum stundum er eytt í prjónaskap og aðrar handiðnir.
Enginn þorir lengur að nefna sjónvarpsgláp nema fótbolta og golf. Annað er rugl og tímaeyðsla. Stjórnmál eru bull. Best að kjósa bara íhaldið og Ólaf Ragnar. Leyfa þeim að sigla landinu aftur til Helvítis í innkaupakerru. Kemur okkur ekki við meðan við fáum ódýr lán og getum keypt nýjan Reinsa.