Sífellt fjör þegar ég fer á milli staða með minn offituskrokk. Fólk er ekki vant að sjá tæplega hundrað og fjörtíu kílóa flykki mjakast á milli staða. Hvað þá rösklega eins og ég geri núorðið.
Aðallega ungar konur á þrítugsaldri benda hlæjandi á mig úr bílum sem aka framhjá. Í gær öskruðu þó fjórir tíu ára gaurar óatkvæðisorðum á eftir mér. Einn af þeim elti mig þegar ég sýndi engin viðbrögð og reyndi að fá mig til að slást. Ég hugleiddi um stund að senda hann í götuna.
Fólk virðist ekki fatta að hrætt dýr bítur frá sér. Ég er friðsemdarmaður að eðlisfari en get orðið reiður þegar mér finnst gengið á minn hlut. Ræð stundum ekki við bræðina sem blossar skyndilega upp.
Ég ætti kannski að láta það eftir mér að leggja hnefann í andlitið á fólki sem telur það til réttinda sinna að gera grín að mér vegna offitu minnar. Af hverju ætti ég að sætta mig við svona viðmót?