Háttvísi fyrri tíma

Sjálfur er ég ekki enn orðinn fertugur en finnst samt eins og áður fyrr hafi tíðkast mun meiri háttvísi í strætó.  Man að allir farþegar sátu með fætur á gólfinu.  Unglingar og börn viku sæti fyrir eldri borgurum og konum sem áttu von á sér.

Þögnin er mér þó minnistæðust.  Fátítt að nokkur hlaut angur af öðrum sem ræddu saman í hálfum hljóðum í hvors eyra.  Nú öskra allir sem mest þeir mega með gemsana á lofti og fætur upp í sætum og skeyta lítt um þreytta samfarþega á leið heim úr vinnu.

Enda eru strætisvagnar einu staðirnir þar sem ég fæ enn kvíðaköst. Tuttugu tonna blikkbeljur með alla glugga lokaða, snarruglaða farþega og misjafna bílstjóra sem stöðva kannski við mannlausar biðstöðvar.  Ekki alveg mitt uppáhald.

Verð að hafa meiri stjórn á aðstæðum.  Þess vegna geng ég og hjóla á milli staða.

Færðu inn athugasemd