Nýtum kosningaréttinn!

Enn og aftur kosningar á laugardaginn.  Hef verið að fara í gegnum bæklinginn og skoða netið.  Sex spurningar.  Auðvitað dröslast ég á kjörstað.  Hef samt bæði efasemdir um tillögur Stjórlagaráðs og vilja þingmanna til að fara eftir þeim verði þær samþykktar af lýðnum.

Skil ekki alveg hvernig endurbætt eða ný stjórnarskrá lagar allt sukkið fyrir hrun. Ekki fóru skussarnir á Alþingi eftir stjórnarskránni þá. Því skyldu þeir eitthvað frekar fara eftir nýjum reglum.

Og ég sé ekki betur en að flest gömlu, sveittu andlitin ætli sér aftur á þing. Til hvers í fjandanum!  Jú, til að viðhalda óbreyttu ástandi og jarða allar breytingar á stjórnarskránni í stjórnarskrárnefnd næstu árin.

Ekki einu sinni núverandi meirihluti styður heilshugar breytingar á stjórnarskránni.  Allt er þetta gert til að slá ryki í augu kjósenda.  En fjandakornið, ég ætla samt að mæta á kjörstað og svara spurningunum sex játandi, neitandi eða bara alls ekki.

Kannski er ég gamaldags, en fyrir mér er kosningarétturinn heilagur og leggur skyldur á okkur kjósendur að nýta hann ef við getum.  Jafnvel þó við ætlum okkur bara að skila auðu eða skrifa vísukorn á kjörseðilinn.  Og sérstaklega þegar stærri hrunflokkurinn kallar þjóðaratkvæðagreiðsluna „fúsk“ og skipar kjósendum sínum að segja NEI.

Færðu inn athugasemd