Á Íslandi er ekki nógu frjálslyndur flokkur handa mér. Frjálslyndi flokkurinn heitni var langt frá því nógu frjálslyndur fyrir mig. Gekk aðallega út á kvótakerfið. Á Íslandi eru bara íhaldsflokkar til hægri og vinstri. Enginn sem vill auka frelsi þegnanna.
Ég vil hlýta reglum en ekki greiða fyrir samviskubit annarra með ofursköttum á áfengi, tóbak og sykur. Fólk drekkur, reykir og fær sér sælgæti við tækifæri. Hvers vegna á að refsa því fyrir að hafa stöku sinnum nammidaga?
Félagi minn í menntaskóla kallaði mig „frjálslyndisfasista“. Hef ekkert breyst síðan þá. Kaus krata um tíma samkvæmt vana en fann mig aldrei fyllilega þar. Hef bara orðið frjálslyndari með árunum ef eitthvað er. Það er sennilega til eitthvað við slíkum sjúkdómi.
Skil ekki hvers vegna heimtuð eru himinhá áfengisgjöld sem eru svo EKKI notuð til forvarna eða meðferða. Þau renna bara inn í ofmannað ríkisbáknið. Þess vegna skrifa ég ekki undir bænaskjalið hjá SÁÁ. Vil ekki fá enn einn skattinn ofan á rándýran bjórsopann sem ég sárasjaldan leyfi mér að þamba.
Skil þó vel að verstu áfengissjúklingarnir þurfi hjálp rétt eins og börn alkahólista. Finnst samt eins og neyð þeirra sé notuð til að betla meiri tekjur handa SÁÁ.