Dúlla 1999-2012

Hvíl í friði

Dúlla

Fædd 8. febrúar 1999

Dáin 29. október 2012

Mamma valdi þetta litla norsk-persneska skott fyrir rúmu þrettán og hálfu ári síðan.  Grár hnoðri sem kurraði í stað þess að mjálma.  Urðum fljótt góðir vinir.  Sérstaklega elskaði hún ístruna á mér hvar hún dvaldi löngum stundum malandi og fékk sitt klapp.

Svo flutti mamma en mátti ekki hafa kisu með sér.  Dúlla varð eftir í minni umsjón en fékk vikulegar heimsóknir frá aðaleigandanum sem tróð í hana pillu svo hún yrði ekki kettlingafull.  Dúlla mátti þakka fyrir að sleppa lifandi úr vistinni hjá mér.  Gat varla hugsað um sjálfan mig á þessum tíma.

Hún var bitinn af einhverjum nauðgandi fress og fékk eitrun. Var orðin hálf lömuð þegar mamma tók aftur við henni og læknaði til heilsu.  Varð „inniköttur“ eftir það en fór samt í göngutúra með húsfreyju sinni um bakgarðinn á veðursælum dögum.  Flutti sem betur fer ekki aftur til mín.

En krabbinn lævís og lipur læddi sér inn í líf Dúllu sem dvaldi sátt hjá mömmu sinni. Kom fyrst fram í tannholdi en hvarf eftir hreinsun. Svo í kringum mjólkurkirtla og virðist þaðan hafa dreift sér inn á við hægt og bítandi.

Rödd míns elskulega afa og nafna glymur í hausnum á mér: „þetta er bara köttur“.  Við deildum ekki hrifningu minni á köttum.  Samt var afi einn yndislegasti maður sem ég hef kynnst.  Hef hugsað til hans síðustu daga meðan ég fylgdist með kisu versna með hverjum deginum.

Dúlla lá á sófaarminum í gærkvöldi og sneri upp að veggnum eins og svo oft áður síðustu vikur.  Um tíma leit hún til hliðar og horfði stíft í augu mér.  Þá vissi ég að hún væri að kveðja.  Augun voru svo dökk og sorgmædd.  Ég klappaði henni í síðasta skipti. Hafði sætt mig við að hún myndi ekki snúa aftur frá dýraspítalanum.

Merkilegt hve miklum tökum gæludýr nær á hjarta manns.  Hvað þá eftir tæp fjórtán ára kynni.  Þrátt fyrir að við bjuggum ekki alltaf undir sama þaki, þá tók hún mér ætíð fagnandi blessunin.  Settist við hlið mér og „leyfði“ mér að klappa sér.  Var þó hætt að skríða upp á ístruna síðustu árin.

Hvíl í friði litla loðdýr!  Þú varst stórmerkilegur persónuleiki.

Færðu inn athugasemd