Enginn er saklaus

Flott hjá Bylgju að telja það ekki nauðsynlegt að fyrirgefa kvölurum sínum fyrir eineltið. Hún rakti ofbeldissöguna í Ísland í dag á Stöð 2. Hvers vegna þurfa fórnarlömbin alltaf að rétta fram hinn vangann.  Gerendurnir eiga slíkt ekki skilið.  Jafnvel þó þeir hafi sjálfir átt bágt í æsku.

Við tökum flest andköf þegar við heyrum sögur eins og hennar Bylgju. Skiljum ekki í grimmdinni hjá börnunum.  Höfum gleymt að við stunduðum sjálf einelti í æsku í mismiklu magni.  Stundum í hóp, stundum einsömul.

Man eftir jafnaldra sem var í nokkra mánuði í sama grunnskóla.  Settur á borðið okkar án þess að við værum spurðir álits.  Átti eitthvað bágt.  Gruna að hann hafi verið með snert af einhverfu eða asbergers án þess að hafa verið greindur.

Uppfullur af gremju barði ég í borðið og fór ekkert í felur með óánægju mína að þessum undarlega gaur var komið fyrir hjá okkur en ekki á hinu strákaborðinu.  Fannst okkur vera sýnd óvirðing með því að vera settir í sama flokk og hann.  Viðkvæmnin og gelgjan var að gera út af við mig.

Verður alltaf hugsað til stráksins þegar einelti ber á góma í fjölmiðlum.  Hve illa ég kom fram við hann í stað þess að sýna honum vinarhót.  Greyið ógnaði einhverju ímynduðu jafnvægi og ég lagði hann í einelti með því að hunsa hann og útiloka.

Gerir glæpinn enn verri að ég hafði sjálfur lent í smá einelti fyrr á skólagöngunni.  Hefði átt að vita betur.  Ekki fer ég fram á fyrirgefningu frá honum.  Á hana ekki skilið.

Færðu inn athugasemd