Sólað í hringi

Blikkbeljurnar sóla í hringi í leit að betra stæði nær sjúkrahúsinu.  Guð forði þeim frá því að þurfa taka nokkur aukaskref.  Gætu dáið af ofreynslu. Tveir nikotínfíklar hanga við innganginn.

Ég stend fyrir utan og anda að mér fersku súrefni slyddunnar. Tel í mig kjark.  Sannfæri sjálfan mig um að ég eigi afturkvæmt.  Að ég verði ekki lagður inn til frekari rannsókna.

Er með fóbíu fyrir spítölum og sprautunálum.  Fátt hræðist ég meira.  Öll fórnarlömb hálkunnar í anddyrinu vekja hjá mér ugg.  Meika ekki veikt og sært fólk.  Flýti mér í gegn.

Biðstofa sykursjúkra er eins og ættarmót.  Gamlir vinnufélagar af tveimur stöðum eru þarna staddir.  Vissi um annan en hinn ekki.  Ísland er virkilega lítill staður.  Tala of mikið og er allt of hnýsinn.  Hálf skammast mín fyrir framhleypnina.  Kemur mér ekki við.

Háöldruð kona með beinkröm situr með okkur.  Góðvildin skín úr augum hennar.  Minnir mig á Kristínu langömmu.  Þrátt fyrir bogið bak þá harkar hún af sér og leyfir engum að leiða sig milli staða.

Par á áttræðisaldri er þarna líka.  Hann að koma í tékk og hún með til stuðnings.  Ein hjúkkan er frænka hans en hann veit ekki nákvæmlega hvernig þau eru skyld.  Konan hans er varla í rónni fyrr en hún fær það á hreint:

Kona:  Hvernig eruð þið skyld?

Karl:  Það veit ég ekki.

Kona:  Þið hljótið að vera náskyld fyrst að hún heitir sama nafni og móðir þín?

Karl:  Getur vel verið.

Kona:  Viltu ekki vita hvernig þið eruð skyld?

Karl:  Nei, ekkert frekar.

Ég og fleiri karlpungar í biðstofunni glottum ískyggilega með karlinum.  Við skiljum ekki svona forvitni um ættartengsl við ókunnugt fólk. Okkur nægir að hafa hitt viðkomandi á ættarmóti.  Meira þurfum við ekki að vita.

Færðu inn athugasemd