„Hvað ert þú að gera núna?“ er stöðluð spurning sem ég fæ þegar ég rekst á gamla vinnufélaga eða kunningja. Ég er með nokkur svör á lager: „Mæli göturnar“, „Á milli starfa“, „Ætla að klára námið“.
Segi sjaldnast að ég sé einn af þeim langtímaatvinnulausu sem Guðbjartur velferðarráðherra ætlar að sópa undir teppi á næsta kosningaári með loforðaáætlun um 2.200 ný störf handa okkur vesalingunum sem enginn hefur viljað ráða til starfa nú þegar.
Ný störf eru ekki göldruð fram úr loftinu með töfrasprota. Guðbjartur er hinsvegar í baráttu um formannsembætti. Verður að gera eitthvað til að sigra Árna Pál. Samt svolítið seint í rassinn gripið þegar við erum að fara að falla í faðm bæjarfélaganna.
En hvað um það. Má víst ekki vera of neikvæður. Auðvitað ber að fagna öllu framtaki til að virkja okkur upp úr sófanum.