Ég er ekki einn af þeim sem harma að hafa misst vinnuna á sínum tíma. Fyrir mig var það hálfgerð blessun. Kjaftshöggið sem ég þurfti á að halda. Kærkomin hvíld frá lífinu. Var orðinn svo illa haldinn af ranghugmyndum, félagsfælni og kvíða. Og hélt þeim gangandi með bjórdrykkju.
Peningaleysið leiddi í ljós að mér var viðbjargandi frá ölinu. Skortur á áreiti veitti mér stundarfrið til að kynnast sjálfum mér á ný. Ég þekki ekki lengur þennan mann sem ég hafði að geyma fyrir hrun. Mikið rosalega átti hann bágt!
Er ekki að segja að allt sé núna í himnalagi. Bara að nú þekki ég gjóturnar og kann að forðast þær. Virði ekki lengur viðlits svipina sem fara á stjá þegar skyggja tekur í sálu minni. Skrifa mig sérhvern dag frá ruglinu sem ratar í kollinn á mér. Syng í sturtu til að létta huga minn. Fer út að ganga. Geri grín að sjálfum mér.
Fyrir hrun var líf mitt á villigötum þrátt fyrir tilraunir góðra til að stýra mér í rétta átt. Ég hlustaði ekki og kenndi öðrum um allt. Var svo blindur á þann þrönga veg sem ég hafði valið mér. Sá enga sök hjá sjálfum mér. Allir voru svo vondir við mig.
Þakka þér atvinnuleysi fyrir að bæta líf mitt. Ég er betri maður fyrir vikið þrátt fyrir að ég óski engum að vera lengi án vinnu.