Frændi hans Skröggs

Þrátt fyrir að vera óvenju andlega hress svona skömmu fyrir Jól, þá er fátt við þessa hátíð sem vekur hjá mér tilhlökkun eða kátínu.  Þyrfti sennilega að eiga börn til að upplifa aftur hina barnslegu gleði æskunnar. En þar sem ég er fjarskyldur frændi Skröggs, þá er til lítils að hlakka.

Þegar jólalögin byrja að nauðga hlustir mínar í nóvember, þá hefst velgjan í maga mér. Stolnar og endurunnar, ítalskar aríur sem Bó heyrði fyrst sauðdrukkinn við sundlaugarbakkann.  Hjólavælið hans Stebba.  Ótal útgáfur af mömmu að slumma jólasveininn í stofunni í gær.

Hó, hó, hó auglýsingar fluttar með einróma röddu Kóka Jóla.  Krakkar heimta í skóinn.  Konur troða sér í kjólinn fyrir jólin.  Tugir tónleika öll kvöld aðventunnar.  Opið allan sólarhringinn.  Skvísan úr Pressu minnir á hvíldartímann.  Brunalyktin af kortunum berst út á götu.  Töflur sem bæta meltinguna seljast í bílförmum.

Jólasvínið stynur á borðum landsmanna og mig dauðlangar í kjúkling og hrísgrjón.  Hef heldur aldrei skilið hangiket.  Byrgi mig upp af AB mjólk og hrökkbrauði til að losa tveggja daga misþyrmingu úr þörmunum á Annan í Jólum. Er þá orðinn rjúkandi flak með allt of háan blóðþrýsting, harðlífi og sjóntruflanir.

Það sem ég legg á mig fyrir þessa hátíð!

Færðu inn athugasemd