Kona ársins

Hildur Lilliendahl var valin maður ársins hjá DV.  Kommentakerfið á vefsíðu blaðsins fór í kjölfarið á hliðina. Þorri karlrembupunga og kvenníðinga landsins komu út úr skúmaskotum sínum og létu í ljós skoðun sína á valinu. Fannst þetta óhæfa.

DV á hrós skilið.  Hildur er virkilega hugrökk manneskja sem bendir okkur réttilega á að jafnrétti kynjanna er langt í frá náð.  Ef eitthvað er þá fer því aftur með nýjum kynslóðum.  Megum ekki sofna á verðinum.

Fyrir mér er vandamálið ekki einskorðað við karlmenn.  Margar konur vilja enn hafa það þannig að karlinn ráði ferðinni.  Þær hatast út í femínista og ala dætur sínar upp sem ambáttir fyrir karlpeninginn.  Láta þær þjóna bræðrum sínum og þrífa eftir þá.

Konur ekkert síður en karlar ala upp rembur.  Oft óaðvitandi.  Dekra drengina sína í svo mikið drasl að þeir heimta sömu þjónustu þegar þeir loks flytja úr hreiðrinu í sambúð.  Skilja svo ekkert í frekjunni hjá makanum sem krefst samvinnu á öllum sviðum.

Sterkar karlfyrirmyndir eru málið.  Þá meina ég andlega, ekki endilega vöðvabúnt.  Sannir karlmenn setja hagsmuni barna sinna framar öllu.  Koma fram við konur sem jafningja og félaga.  Sparka í rassinn á sonum sínum ef þeir fara haga sér eins og aumingjar gagnvart konum.

Færðu inn athugasemd