Fyrir mitt bráðum fjögurra ára atvinnuleysi drakk ég mig í svefn hvert kvöld í krafti góðæris og botnlausrar yfirdráttarheimildar. Gat lifað eins og greifi þrátt fyrir lúsarlaun í hinum og þessum láglaunastörfum. Svo kom hrunið og sparkið.
Komst fljótt að því með atvinnumissinum að tíu bjórar á kvöldi var ekki málið. Komst einnig að því að drykkjusýkin var ekki verri en svo að ég saknaði ekki sopans fyrir svefninn. Líðanin fór skánandi upp frá því.
Félagsfælnin og mannafælnin minnkuðu smá saman og ég gat loksins farið í Smáralind og Kringluna án þess að fá taugaáfall. Kvíðinn hvarf. Rimlarnir á mínu sjálfskipaða fangelsi brustu. Ég flutti úr rottuholunni í mannabústað.
Mér bauðst að taka aftur upp nám við Háskóla Íslands út á reikning Vinnumálastofnunar fyrir tæpum tveimur árum síðan. Ein önn á bótum. Hausinn á mér var því miður ekki kominn á réttan stað eins og núna þegar ég er loks tilbúinn.
Langar ekki til að fara að starfa sem hálfgerður þræll á lágmarkslaunum næstu sex mánuðina hjá einhverri nánös sem vantar hræódýrt vinnuafl. Gubjartur Hannesson velferðarráðherra er barnalegur skáti sem trúir því virkilega að svona úrræði skili einhverju varanlegu.
Allt er gert til að lækka atvinnuleysisprósentuna fyrir kosningarnar í vor. Við aumingjarnir erum send út á Guð og gaddinn okkur til hvatningar. Ég heimta að fá veitta B.A. gráðu í atvinnuleysi. Minna má það ekki vera eftir að hafa sótt um og fengið neitun um störf í meira en þrjú ár.