Hreppsómaginn

Jæja, best að leggja orð í belg.  Hef ekki opnað á mér þverrifuna á þessum vettvangi síðan rétt eftir áramót.  Nýársdoðinn óvenju sterkur núna með allar þessar lægðir yfir landinu.  Veðrið var þó gott í dag.

Svo er ég líka enn að melta að Guðbjartur loforðaráðherra er búinn að sparka mér af atvinnuleysisbótum. Fæ ekki krónu meir úr þeirri átt nema óbeint í gegnum verkefnið Liðsstyrk.

Ekkert nýtt þannig séð nema að áherslan er núna lögð á að atvinnurekendur ráði langtímaatvinnulausa gegn framlagi frá Vinnumálastofnun.  Eitthvað sem þeir hafa fæstir nokkurn áhuga á að gera. Vilja skiljanlega fáir ráða fólk sem er búið að sitja á hliðarlínunni í heilt kjörtímabil.  Er jafnvel orðið óvinnufært og hálfgerðir öryrkjar.

Ég tók eitthvert krossapróf hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar fyrir áramót. Niðurstaða þess segir að ég sé vinnufær.  Að minnsta kosti andlega séð því ég fer stundum út að ganga og er ekki með snöruna um hálsinn. Ljóta vitleysan!  Hvernig væri að senda mann í þolpróf líka.  Myndi kolfalla á því.

Auðvitað væri fínt að fá sex mánaða starf.  Allt er betra en ekkert. Fyrirgefðu mér samt svartsýnina.  Hef verið án vinnu í meira en þrjú, bráðum fjögur ár án þess að fá jákvætt svar.  Sjaldnast fæ ég svar.  Núna bíð ég eftir svari frá sveitarfélaginu. Hvort ég fái fjárhagsaðstoð þar til mér tekst loks að tryggja mér starf.

Líður svolítið eins og niðursetningum fyrri alda sem voru boðnir upp á hverju ári.  Sá bóndi sem þáði lægsta meðlagið frá hreppnum með niðursetningnum vann uppboðið.  Gat svo farið með hann eins og hvert annað búfé.

Færðu inn athugasemd