Skinhelgi Eyjamanna gagnvart eiturlyfjum er í besta falli fyndin ef ekki fáranleg. Í þessu fræknasta sjávarplássi landssins er ekki verið að amast við áfenginu. Bara einhverjum plöntum sem menn reykja í landlegu.
Og að reka menn umsvifalaust án tækifæris til að útskýra mál sitt eða bæta sig er fáranlegt og lyktar af illgirni þeirra sem völdin hafa. Þessum ellefu sjómönnum voru ekki einu sinni boðin meðferðarúrræði.
Sjómennskan er krefjandi starf fyrir líkama og sál. Kostar oft langar fjarverur út á rúmsjó fjarri fjölskyldu og vinum. Svo ekki sé talað um áhættuna við að stíga öldurnar í víðsjárverðum veðrum. Slíkt tekur á taugarnar. Lái þeim hver sem vill að slaka á í landi með jónu í annarri hendi og bjór í hinni. Hetjur hafsins eiga slíka slökun skilið milli túra.
Áhöfnum sprengjuflugvéla Bandaríkjahers í seinna stríði var leyft að reykja róandi fyrir flugtak. Helmingslíkur voru á að þeir sneru ekki aftur. Sjálfur er ég logandi hræddur um líf mitt með Herjólfi milli lands og Eyja. Gæti aldrei dvalið vikum saman út á ballarhafi án róandi lyfja.
Hreintrúarstefna Eyjamanna gagnvart öðrum vímugjöfum en áfengi er undarleg í samanburði við áralangt áhugaleysi þeirra gagnvart nauðgunum á Þjóðhátíð. Eru reyndar að bæta sig eins og myndavélakerfi síðustu hátíðar hefur sannað. Voru samt rosalega tregir og seinir til úrbóta.
En eins og Pírataflokkur Birgittu Jónsdóttur bendir á þá er vímuefnapróf innrás í einkalíf fólks. Kemur engum við hvað ég reyki eða drekk í frítíma mínum. Hvað er næst. Munu fulltrúar vinnuveitenda fylgja fólki inn í kjörklefana? Vinnuveitendum á að nægja að starfsfólk þeirra sé allsgátt á vinnutíma.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/02/07/fridhelgi_einkalifs_sjomanna_brotin/
http://smugan.is/2013/02/vinnslustodin-a-ad-endurskoda-brottrekstur/