Þegar ráðherrar ferðast ótt og títt síðustu mánuði kjörtímabilsins þýðir það eitt að þeir vænta þess að verða ekki ráðherrar eftir næstu kosningar. Ögmundur hefur verið einstaklega duglegur síðustu vikurnar. Flogið til Kína, Indlands og ég veit ekki hvert.
Samhliða ferðalögum sínum hefur hann reynt að troða fram undarlegu frumvarpi sem á að banna streymi kláms inn í landið í gegnum internetið. Eitthvað sem færustu tölvufræðingar heimsins hafa ekki getað fram að þessu.
Fingraför aðstoðarkonu ráðherrans eru öllum ljós á téðu frumvarpi. Halla Gunnarsdóttir virðist hata karlmenn og telja að konur skoði ekki klám. Ekki frekar en að konur spili fótbolta. Vill reyndar svo til að hún var sjálf skæð fótboltakona á árum áður. Skrítið!
Nú er Steingrímur Joð hættur formennsku. Guð hjálpi Vinstri-Grænum og landslýð ef Ögmundur býður sig fram og hlýtur meirihluta atkvæða miðaldra og beiskra karla sem harmað hafa hlut sinn í flokknum fram að þessu.
Katrín Jakobsdóttir hefur staðið vaktina eins og hetja sem varaformaður síðasta áratuginn og á skilið að hljóta rússneska kosningu sem næsti formaður Vinstri-Grænna. Að bjóða sig fram gegn henni væri dónaskapur af verstu gerð. Vonandi sýna karlarnir í flokknum smá háttvísi og gera unga, gáfaða og glæsilega konu að formanni VG.