Hvernig væri að opna augun!

Gubbaði á eldhúsdagsumræðurnar í gærkvöldi.  Djöfulsins viðbjóður þingmanna að lofa upp í ermarnar á sér og skíta út andstæðinginn.  Fannst Birgitta Jónsdóttir standa upp úr.  Ein af fáum heiðarlegum einstaklingum við Austurvöll.

Fyrir mér er hún boðberi netfrelsis.  Flestir fjórflokkanna gæla við að setja bönd á netið með lagasetningu.  Slíkar pælingar fara illa í mig.  Netið er frjálst með öllum sínum kostum og göllum og á að vera það áfram.

Internetið er helsta samfélagsbylting mannkyns síðan að Gutenberg kynnti prentvélina fyrir Evrópu á fimmtándu öld.  Við megum ekki setja hömlur á hina frjálsu hraðbraut upplýsinga.  Alnetið er síðasta vígi okkar sem aðhyllumst frjáls skoðanaskipti.

Netið er nútíð og framtíð hinnar íslensku þjóðar.  Við eigum að grípa tækifærið og lokka til okkar erlend fyrirtæki. Hýsa netsíður þeirra í okkar kalda lofti fyrir sanngjarnt gjald.  Hér er friður og lítil hætta á stríðsátökum. Helst að jarðskjálftar og eldgos ógni okkur.  Eitthvað sem truflar ekki netbú reist og rekin á byggðum bólum landsins við hafið.

Steingrímur Joð lofar öllu mögulegu svo einhvers konar ver megi rísa við Húsavík en tekur ekki netbú inn í myndina.  Veðjar bara á mengandi stóriðju.  Skammsýni stjórnmálamanna er okkur til skaða. Vonandi leiðrétta komandi kosningar þröngsýnina og stýra okkur í rétta átt.

Við höfum ekki lengur efni á þaulsetnum pólítíkusum sem eru með höfuðin föst í sjávarútvegi og landbúnaði.  Svo margt annað er í boði.  Sérstaklega hvað varðar netið og umsjá þess.  Hvernig væri að opna augun!

Færðu inn athugasemd