Kastaði upp á kassann í gær þegar heilaþvegið ungviðið þuldi upp lygaþvælu íhaldsins í annarri sjónvarpsauglýsingu kosningavorsins. Sú fyrsta kom frá krötum þar sem spurt var hvort að maður vilji borga einu sinni eða tvisvar fyrir íbúðina sína.
Annar flokkurinn lofar upp í ermina á sér og hinn er búinn að gleyma 110% leiðinni og kröfuhöfunum sem keyptu bankana á slikk með samþykki ríkisstjórnarinnar. Örvæntingin skín úr þessum rándýru framboðum meðan Framsókn siglir á lygnum sjó með sitt 28,5% fylgi í könnunum.
Fólk leitar í það sem það þekkir. Fylgið flakkar á milli fjórflokkanna og kannski smá til fimmta framboðsins; Bjartrar framtíðar. Fjósafasistarnir endurnýjuðu sig best eftir hrunið. Stóðu keikir í Icesave og gáfu aldrei eftir eins og Bjarni Ben. á síðustu metrunum.
Þrátt fyrir Kögunarformanninn sem ætlar sér að bæta við fjölskylduauðinn austur á fjörðum með Kínagulli og málhalta og nær rasíska Vigdísi Hauksdóttur þá bætist fylgið við flokkinn í hverri könnun sem birtist. Framsókn talar nefnilega tungu alþýðunnar án tæknikratísku og grillgræðgi.
Ætíð þegar búið er að afskrifa blessað sveitaíhaldið þá rís það upp aftur eins og Fönix úr öskunni og sigrar á ný. Ljóst er að flokkurinn verður í næstu stjórn. Hvort heldur til hægri eða vinstri. Íslendingar eru lítið fyrir nýjungar á stjórnmálasviðinu.
Því miður!
Sjálfur er ég að gæla við þá hugmynd að kjósa Dögun. Hef enga trú á besta framsóknarkratagrautnum Bjartri framtíð. Píratar eru líka inn í myndinni en eru kannski aðeins of miklir pönkarar fyrir minn smekk.