Lýðræðið er til þess að nota það!

Fyrir mér er það skýrt að kratar og íhald hafa kosið sér ranga formenn. Prinsa sem er meira annt um spegilmyndir sínar en málefnin.  Enda hefur fylgið hrunið af þessum tveimur flokkum.  Kápan skiptir ekki máli, heldur innihaldið.

Í jaðrinum bíður Hanna Birna þolinmóð þess fullviss að verða hin íslenska Margaret Thatcher sem nær fylgi flokksins upp á ný og aftur inn í ríkisstjórn. Bjarni er bara biðleikur frá grárri forneskju Engeyjarættarinnar.

Verra er að spá hver á að bjarga krötunum frá falli.  Kannski hefðu þeir betur kosið Guðbjart þrátt fyrir dekur hans við forstjóra Landsspítalans. Veit það ekki.  Man varla stundinni lengur hver er varaformaður.  Gæti alveg eins enn verið Dagur fyrir mér.

Ólíkt hinum sauðunum sem hafa gefist upp á þessum tveimur flokkum, þá ætla ég ekki að halla mér upp að Framsókn.  Trúi ekki á að hoppa úr öskunni í eldinn.  Ætla að veita einhverju „litlu“ framboðanna atkvæði mitt þrátt fyrir hinn fáranlega 5% þröskuld gömlu fjórflokkanna skv. 108 gr. kosningalaga:

„Þau stjórnmálasamtök koma ein til álita við úthlutun jöfnunarsæta sem hlotið hafa a.m.k. fimm af hundraði af gildum atkvæðum á landinu öllu.“

Atkvæði er aldrei kastað á glæ.  Slíkt er bara innantómur áróður gömlu flokkanna fjögurra.  Ég ætla að taka áhættu einu sinni í stað þess að kjósa hið næst versta í veikri von um að ástandið versni ekki enn frekar.

Okkar er valið!  Ég klessti nafni mínu á meðmælendalista lítils framboðs um helgina og leið virkilega vel á eftir.  Hver veit nema að ég kjósi það einnig eftir tæpar fjórar vikur.  Lýðræðið er til þess að nota það!  Það á ekki heima á rykfallinni hillu fjórflokkssins.

Færðu inn athugasemd