Allir eru svo uppveðraðir yfir fylgi Framsóknar en enginn fattar þarna er á ferð hið fasta fylgi íhalds og fjósafasista sem fer aldrei út fyrir sinn þægindaramma til annarra framboða. Spurningin snýst bara um hvort að Sigmundur Davíð eða Bjarni muni leiða komandi stjórn.
Við Íslendingar erum fávitar upp til hópa. Kokgleypum innantóm loforð hrunflokkanna um betri tíð og blóm í haga. Höfum ekki í okkur þá þolinmæði sem er nauðsynleg til að komast almennilega í gegnum hrunið. Fjögur ár nægja ekki. Annað kjörtímabil er nauðsynlegt með sitjandi stjórn.
Hin fyrsta hreina vinstristjórn hefur gert sitt besta en féll auðvitað í þá gryfju að reyna koma sínum blautustu draumum að þegar hún hefði betur átt að iðka smá sjálfsstjórn. Fólk í kreppu nennir ekkert að hlýta frekari bönnum og reglum. Ekki heldur að greiða hærri skatta fyrir ofurskattað áfengi og eldsneyti.
Hefði velferðarstjórnin bara sleppt þessu runki sínu og látið vera að halda eftir hækkun hjá öryrkjum og öldruðum, þá ætti hún kannski möguleika 27. apríl. Hefði hún sýnt smá þor og heimtað meiri afskriftir frá slitastjórnum bankanna, þá hefði 110% leið Árna Páls Árnasonar verið sanngjörn 70% leið heimilanna.
100% hefði verið mun betri leið. Þannig hefði fólki ekki fundist því vera refsað fyrir að hafa fjárfest í húsnæði. Verst er að þær litlu aðgerðir sem stjórnin hefur ráðist í hafa bara gagnast skussunum sem skuldsettu sig upp í rjáfur. Þeir sem tóku rífleg lán og keyptu sér jeppa og rándýrt innbú fyrir afganginn.
Samviskusömu einstaklingarnir sem fóru varlega og greiddu skuldir sínar eru núna við að missa húsin sín. Skussarnir sigla hinsvegar lygnan sjó með allt sitt afskrifað. Hvar er réttlætið í því? Hér er á ferðinni hreint siðrof þar sem fólki er refsað fyrir að vera ærlegar manneskjur.