Fjórflokkurinn er spilltur enda á milli. Nema kannski Vinstri – Grænir. Eru ærleg í boðum sínum, bönnum og skattahækkunum án þess að stilla sér upp við kjötkatlana.
Öllum er ljóst að íhald og fjósafasistar ætla að rugla saman reitum eftir kosningar og skipta öllu á milli sín til helminga. Ruglið frá 2007 endurtekur sig og landið fer endanlega á hausinn. Allt vegna þess að helmingur þjóðarinnar eru fávitar sem þrá ný húsgögn í stofuna hjá sér og bíl sem passar við. Og allt á lánum.
Þessi sami helmingur sér ekki þann árangur sem hin fyrsta hreina vinstri stjórn hefur náð síðastliðin fjögur ár. Horfir bara á nauðsynlegar skattahækkanir og þau mál sem komust ekki í gegn á kjörtímabilinu vegna andstöðu Sjálfstæðisframsóknarflokksins.
Stundum verður maður að treysta blint. Nú er sá tími kominn. Þrátt fyrir hægrisinnaðan formanninn og gufuna varaformanninn þá er ég að gæla við að kjósa Samfylkinguna. Þar er fleira gott fólk en forystan. Myndi halla mér að Vinstri – Grænum ef þau væru ekki svona þröngsýn, bannglöð og á móti Evrópusambandinu.
Björt Framtíð er samansafn þingmanna sem komust ekki á lista í prófkjörum Samfylkingar og rugludalla frá Besta flokknum. Það lið verður bara að leita sér að annarri vinnu eftir kosningar. Ég ætla ekki að auðvelda þeim lífið með mínu atkvæði.
Var við það að kjósa Pírata en hætti snögglega við þegar ég fattaði að þau eru ekkert sérstaklega hlynnt höfundarrétti listamanna. Vilja bara fá allt ókeypis á netnu. Höfundaréttur er tekjulind tónlistarmanna, rithöfunda og annarra listamanna. Eftirlaunasjóður skapandi einstaklinga. Mér dettur ekki í hug að svipta því öryggisneti frá þeim.
Tæp vika er til kosninga og villuráfandi sauðir eins og ég silast aftur til heimahaganna. Ekkert smáframboðanna heillar mig nógu mikið til að svíkja Kratahjartað í mér. Römm er sú taug. Ég vil kjósa um ESB. Annað er glapræði í boði LÍÚ og bændamafíunnar.