Guð hjálpi okkur!

Þrátt fyrir svik gegn nýju stjórnarskránni, fáranleg lyfjalög og kjaraskerðingu aldraðra og öryrkja, þá fylgdi ég mínu gamla Kratahjarta. Reyndi ákaft að krossa við annan reit inni í kjörklefanum en blýanturinn endaði ætíð á S.  Kenni uppeldi og ættarsögu um.

Fannst þau þurfa önnur fjögur ár til að festa efnahagsárangurinn í sessi og til að leiðrétta fyrri mistök sín.  Stilla kompásinn betur og sigla okkur heilum til hafnar úr ólgusjó græðginnar og hrunsins.  Svona svipað og Obama í Ameríku.

En nei, illa upplýstur og minnislaus lýðurinn ákvað að skipta um áhöfn á miðri leið og snúa fleytinu aftur til glötunar í von um frekari skuldaleiðréttingu sem er aðeins til í höfðinu á Sigmundi Davíð.

Mætti halda að þau væru öll ólæs og slefandi; minnislaus og úti að aka. Þeim er ekki viðbjargandi.  Þetta völdu þau og verða að taka afleiðingunum af heimsku sinni.

Sannið þið til.  Framsókn mun taka yfir Kínaævintýri Össurar og selja Grímsstaði á Fjöllum fyrir spottprís til Huang Nubo í gegnum umboð föður formannssins.  Kögun verður endurreist.  Framboð formannssins fyrir austan mun skila auði og auknum völdum til flokksins og fjölskyldu hans.

Bjarni Ben. mun tryggja yfirráð flokksfélaga yfir fiskveiðiauðlindinni um aldur og ævi.  Og sölsa vatnsréttindin aftur undir flokkinn.  Minna má það nú ekki vera.  Þvílíkur dónaskapur af Krötunum að hrifsa þessi réttindi af flokknum á liðnu kjörtímabili.  Hvað gekk þeim eiginlega til.  Að leyfa þjóðinni að eiga vatnið?

Sérstakur saksóknari verður lagður niður og Evrópustofu lokað.  Hruninu og afleiðingum þess sópað undir mottu.  Eva Joly fær ekki að koma aftur. Ekkert gerðist.  Síst af öllu vegna græðgi íhalds og fjósafasista.  Sagan skal endurskrifuð hrunflokkunum í hag.  Sagan er rituð af sigurvegurum hverra kosninga.

Landsbankanum og Landsvirkjun verður skipt bróðurlega á milli flokkanna. EinkaVINAvæðingin heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist.  Enn verri fjölmiðlalög munu koma fram þar sem Morgunblaðið og endurreistur Tíminn eru ríflega ríkisstyrkt.

Verst er þó að það litla sem eftir er af velferðarkerfinu verður skorið niður að beini.  Allt til að greiða fyrir loforð um skattalækkun handa þeim tekjumeiri. Öryrkjar, aldraðir og atvinnulausir mega éta það sem úti frýs.  Tekjuskerðing fyrri stjórnar mun blikna í samanburði.

Ef einhvern tíma var stund fyrir vélbyssugelt og sprengingar þá er það einmitt núna.  Blóðuga byltingu gegn heimsku hálfrar þjóðar.  Af hverju voru Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn ekki bannaðir eftir hrunið eins og Nasistaflokkurinn í Þýskalandi eftir seinna stríð?

Ég kvíði næstu fjögurra ára.  Líkurnar á brottför af þessum kletti hafa aukist ískyggilega mikið.  Langar ekki til að verða vitni að næsta hruni sem verður án efa mun verra.

Svo ég vitni í Stjörnustríð þá hafa hin myrku öfl tekið völdin á okkar annars yndislega landi.  Þýska þjóðin kaus Adolf Hitler til valda á sínum tíma.  Við kusum Sigmund Davíð og Bjarna.  Guð hjálpi okkur því við vitum ekki hvað við gjörum!

Færðu inn athugasemd