20 ára stúdent

Eins og álfur út úr hól slæddist ég upp í MK á föstudaginn sem einn af 20 ára stúdentum.  Eini strákurinn í mínum árgangi ásamt sex eða sjö stelpum.  Slök mæting hjá yfir 50 manna hópi.  Hvar var allt fólkið?

Hékk þarna í tæpa klukkustund svitnandi eins og svínið sem ég er.  Enginn opinn gluggi og dregið fyrir þá alla.  Fékk netta innilokunarkennd meðan á ræðu Margrétar skólameistara stóð.  Félagsfælnin spratt upp úr löngu gleymdum fylgsnum.

Lét mig hverfa án þess að kveðja kjaft.  Leið eins og ég væri staddur kvikmyndinni Groundhog Day nema allir voru tíu árum eldri.

En ætli ég mæti ekki aftur að áratug liðnum til að heiðra skólann minn.  Bjóst aldrei við því að verða stúdent.  Kom mér á óvart að ná því takmarki á sínum tíma.  Þess vegna mæti ég alltaf eins og asni.  Til að þakka fyrir mig.

Mæta kannski fleiri að áratug liðnum.

Færðu inn athugasemd