Danmörk vann auðvitað og við í sautjánda. Megum þakka fyrir að hafa komist í aðalkeppnina með þessi leiðindi. Söngvarinn bjargaði okkur þangað með óaðfinnanlegum söng, framkomu og sjarma.
Við karlmenn erum einfaldar skepnur en við þekkjum sigurvegara strax og þau birtast. Í okkar augum var löngu ljóst að Emilie hin danska myndi sigra en að aðrar þjóðir myndu þó bíta í hælana á henni.
Á íslenska netinu héldu fáar konur með Dönum og bölvuðu flytjandanum fyrir að vera berfætt eins og Loreen í fyrra. Konur eru konum verstar. Frekar kusu þær dökkhærða gaura með loðnar augabrýr. Meira að segja hinn ungverski Ásgeir Trausti með húfuna sína komst langt.
Til hvers að klæðast húfu innandyra? Eða setja á sig sólgleraugu eins og Armeníurokkararnir? Tær sýndarmennska! Ég er að minnsta kosti sáttur við að Rúmenía vann ekki með kontratenórsyngjandi vampírunni sem bar kross um hálsinn niður á bringu.