Sporin hræða þegar kemur að væntingum um nýja ríkisstjórn. Forverar silfurskeiðadrengjanna tveggja settu landið á hausinn. Bjarni kemur auk þess af frægri viðskiptafjölskyldu sem má muna fífil sinn fegurri. Sigmundur er svo sonur manns sem sölsaði undir sig ábátasamt ríkisfyrirtæki og seldi fyrir metfé.
Sporin hræða! Munu þessir föðurbetrungar ekki bara endurtaka leikinn í sinni helmingaskiptastjórn? Af hverju bauð Sigmundur sig fram í Norðausturkjördæmi? Hvar mun óstofnað ríkisfyrirtæki um væntanlegt olíuævintýri enda? Sennilega í kjöltu þeirra feðga eftir „sölu á almennum markaði“.
Og við vitum að ekkert mun gerast næstu fjögur árin hvað varðar samráð olíufélaganna um verðmyndun á eldsneytislítranum með Bjarna sem fjármálaráðherra. Og útgerðin fær frítt spil í sínum málum. Gott ef Engeyjarættin græðir ekki einhverjar krónur á öllu saman.
Verra er að helmingi landslýðs finnst þetta bara allt í lagi. Svona eigi þetta að vera. Vilja jafnvel sjálf fá hlutdeild í illa fengnum gróðanum svo þau geti grillað á kvöldin með góðri samvisku og keypt sér nýtt innbú og jeppa. Minna mig á villimenn fyrri alda sem seldu lönd sín og dætur í hendur landkönnuða fyrir glitrandi perlur.
Nú fagna þeir sem telja sig frjálslynda og til hægri. Bölva og spýta á eftir Jóhönnu og Steingrími. Sjá gull og græna skóga framundan. Að nú muni hollustan við hrunflokkana borga sig margfalt. Kreppan sé loks á enda.
Fatta bara ekki að þeir eru kannski til hægri en langt í frá frjálslyndir. Upp til hópa hommahatarar, kommahatarar, kvenhatarar, lýðræðishatarar, umhverfissóðar og sveittir kallar á síðasta söludegi. Fulltrúar löngu liðinnar fortíðar sem við hinn helmingur þjóðarinnar viljum helst gleyma.
Og kreppunni lýkur ekki með stjórnarskiptum. Stuðningsmenn nýrrar ríkisstjórnar eiga eftir að finna það fljótlega á eigin skinni.