Var á leiðinni í Gleðigönguna en hætti við þegar fréttir bárust af því að strætókerfið væri sprungið. Engir aukavagnar niður í miðbæ. Samt var verið að hvetja fólk til að nýta almenningssamgöngur. Skrítið?
Alltaf sama skipulagsleysið ár eftir ár. Næst munum við verða vitni að þessu eftir tvær vikur þegar menningarnótt brestur á með látum. Til hvers að hvetja fólk til að skilja bílinn eftir heima ef ekki er komið til móts við það með því að fjölga ferðum niður í miðbæ?
Finnst stundum eins og það séu samantekin ráð bæjanna sem eiga aðild að Strætó að hindra fólk í að komast á Gaypride og Menningarnótt. Hvað á maður að halda?
Fullt af fólki er í nöp við hve margir láta sjá sig niður í bæ til að fylgjast með göngunni. Skilur ekki að með því að styðja réttindi homma, lesbía, tvíkynhneigðra og transfóks, þá styðja þau mannréttindi yfir allan bálkinn; ekki síst sín eigin.
Svo eru alltaf trúarnöttararnir sem telja sig geta afhommað með hjálp Drottins. Þeir sömu og eru að flytja inn Franklin Graham í september. Prestar í Þjóðkirkjunni sem telja sig hafa orðið fyrir vitrun rétt fyrir hrunið. Kenna sig við Friðrikskapellu.
Agnes biskup ætlar að tala á þessari samkomu enda aldrei sagst vera því persónulega fylgjandi að samkynhneigðir fengju að giftast. Og færðist undan svari þegar blaðamaður rukkaði hana um svar hvort hún myndi mæta í gleðigönguna, en það hefur hún víst aldrei gert að eigin sögn.
Á meðan Þjóðkirkja er við lýði þá eigum við heimtingu að hún fylgi lögum og stefnu samtímans. Sé ekki í einhverju einkafokki gegn eigin samþykktum. Sjálfum finnst mér að löngu sé orðið tímabært að klippa á naflastrenginn milli ríkis og kirkju. Lífsskoðunarfélög eiga ekki að vera bundin í stjórnarskrá.