Þráhyggja er hættuleg. Getur jafnvel þróast út í geðsjúkdóm og orðið viðkomandi til hindrunar í lífinu. Tel mig þar tala af nokkurri reynslu. Var lengi fastur í sömu rispunni á lífsplötunni minni en hrökk loksins upp úr henni og gekkst við eigin sök.
Slíkar þráhyggjur eru oft þannig að þú getur lítið sem ekkert gert við þeim. Mér fannst allir vera á móti mér þegar sannleikurinn var sá að vandamálið lá aðeins hjá mér og engum öðrum. Ég vann gegn sjálfum mér og kenndi öðrum um.
Eins fáranlegt og það hljómar þá var atvinnuleysið mér dulbúin blessun. Þá loksins fékk ég næði til að horfast í augu við sjálfan mig. Og ég bý að þessari sjálfskoðun. Hún forðar mér frá því að mála skrattann á vegginn í hvert skipti sem einhver kemur illa fram við mig.
Hegðun annarra gagnvart mér er ekki lengur mitt vandamál. Kemur mér ekkert við hvað öðrum finnst um mig. Geta átt slíkt við sjálfa sig. Er hættur að snöggreiðast slíkum fávitum og öskra á hefnd. Reiði gagnvart öðrum er orkusuga sem ég er kátur að vera laus við.
Þess vegna finnst mér svo sorglegt þegar ég kynnist aðilum sem eru pikkfastir í sínu fari. Tala þrotlaust um sama hlutinn og sjá ekki fram úr þráhyggju sinni. Allt er öðrum um að kenna í þeirra augum.
Hvað á ég að segja við slíkt fólk? Sennilega ekki neitt. Þau neyðast til að ganga í gegnum sömu svipugöng og ég. Og vonandi ná þau lendingu sem fyrst. Lífið hefur upp á svo margt meira að bjóða en fingurbendingar á ímyndaða óvini.