Afsakanir eins og „við vorum kosin af meirihluta kjósenda í vor“ duga ekki lengur. Hundrað daga hveitibrauðsdagar stjórnarinnar eru liðnir. Nú verður að taka á henni án silkihanska.
Enn bíða kjósendur hrunflokkanna eftir leiðréttingu húsnæðislána. Eftir ávísuninni sem þau töldu sig fá póstsenda í vikunni eftir kjördag. Haustið mun sannfæra restina af þeim sem hafa ekki nú þegar misst alla trú á efndum stjórnarinnar.
Að vera á móti Icesave tryggði Framsókn metfylgi. Að EFTA dómstóllinn skuli hafa sýknað okkur gerði gæfumuninn fyrir gömlu fjósafasistana. Hinn heimski fjórðungur kjósenda flykktist á kjörstað og kastaði atkvæði sínu á glæ í veikri von um leiðréttingu húsnæðislána sinna. Annar fjórðungur hélt enn tryggð við Sjálfgræðgisflokkinn.
Við hin héldum tryggð við sannfæringu okkar og kusum samkvæmt henni. Innan skamms munum við aftur ná stjórnartaumunum því enginn heilvita einstaklingur sættir sig mikið lengur við grímulaust dekur stjórnarflokkanna við útgerðina og landbúnaðinn. Og það áður en Jói og Jóna á bolnum fá sínar leiðréttingar sem lofað var fyrir kosningar.
Þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er orðinn rödd skynseminnar í stjórninni þá megum við fara að vara okkur. Gunnar Bragi Sveinsson sjoppukarl úr Skagafirði er ekki þess verður að sitja sem utanríkisráðherra hinnar íslensku þjóðar. Hverjum datt sú vitleysa í hug. Mér verður illt í hvert sinn sem hann birtist á skjánum með „supercut“ klippinguna sína og hrokaglott kattarins sem hefur óverðskuldað komist í rjómaskálina.
Svo bölvar þetta lið fráfarandi vinstri stjórn. En fyrir hvað? Fyrir að vera langt komna með að reisa landið upp úr hruni? Ekki voru þau að gefa sautján milljarða skattaafslátt til LÍÚ og afnema auðmennaskatt á fyrstu dögum í embætti og svo hóta fólki frekari niðurskurði í velferðar- og menntakerfinu til að greiða fyrir gjafirnar.
Vissulega fór vinstri stjórnin stundum í taugarnar á mér með sínum boðum og bönnum en ég vissi að henni gekk vel til. Hún var að vinna á skuldavandanum af heilindum. Ég hefði viljað að hún hefði fengið fjögur ár í viðbót til að ljúka verkinu.
Og já, ég hefði viljað fá að kjósa um samning frá Evrópusambandinu. Við erum nú þegar hálf inni. Væri það ekki bara blessun fyrir litla Ísland að fara alla leið og ljúka ferlinu? Það held ég. Varla verra en ástandið er núna. Tökum Möltu til fyrirmyndar! Þar er flest skárra frá inngöngu þeirra í sambandið.
Enginn er eyland! Við þurfum á nánum tengslum að halda við nágranna okkar. Glötun fiskimiða og landbúnaðar er bara áróður þeirra sem vilja ekki selja samlöndum sínum fisk og kjöt á sanngjörnu verði. Neita að stunda eðlileg viðskipti sem fela í sér að geta ekki leikið sér með gengi erlendra gjaldmiðla. Frábiðja sér því samkeppni að utan.
Bankarnir eru sama sinnis. Vilja ekki missa vald sitt yfir húsnæðiskaupendum. Fastir og nær óhagganlegir vextir eru þeim ekki að skapi. Þeir vilja geta hækkað afborganir fólks um þúsundir króna milli mánaða án múðurs.
Mér finnst margir kjósendur núverandi stjórnarflokka misskilja frelsishugtakið. Íhaldið og fjósafasistar eru engir talsmenn einstaklingsfrelsis. Þykjast bara vera það til að fá óverðskilin atkvæði.
Samfylkingin og Píratar eru einu frelsisflokkar landsins. Þeir einir gera ráð fyrir einstaklingsfrelsinu og reyna ekki að hefta það. Allir aðrir flokkar hallast að fasisma.